Danski knattspyrnumaðurinn Nikolaj Hansen, fyrirliði Víkings úr Reykjavík, snýr aftur fyrir síðari leikinn gegn Panathinaikos eftir að hafa tekið út leikbann í fyrri leiknum í umspili um laust sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildarinnar í síðustu viku.
Víkingur vann fyrri leikinn í Helsinki 2:1 og hafa leikmenn beðið í ofvæni eftir síðari leiknum, sem fer fram á ólympíuleikvanginum í Aþenu klukkan 20 í kvöld.
„Nei, það er ekkert stress þannig. Við tókum þennan fyrri leik og vorum ógeðslega góðir. Þetta var eiginlega í fyrsta skipti sem ég var að horfa á leik með góðu spennustigi, ég var ekki stressaður allan leikinn.
Leikmenn voru geggjaðir og það var góð samvinna sem sá til þess að við unnum leikinn,“ sagði Nikolaj í samtali við mbl.is á leikvanginum í gær og viðurkenndi að hafa verið leiður að missa af fyrri leiknum.
„Já mjög en ég stóð í stúkunni og sá leikmennina gera þetta fullkomlega. Í leiknum á morgun [í kvöld] verðum við líka að eiga fullkominn leik og refsa þeim.“
Spurður út í möguleika Víkings í leiknum í kvöld sagði hann:
„Mér finnst möguleikarnir vera mjög góðir. Ef við höldum áfram að sýna góðan karakter og baráttu held ég að við getum líka náð góðum úrslitum á morgun [í kvöld]. Allir leikmenn verða að vera klárir frá því að leikurinn byrjar og jafnvel í 120 mínútur.“
Víkingar ferðuðust frá Helsinki til Aþenu síðasta föstudag og hafa notið sín í grísku höfuðborginni.
„Það er búið að vera mjög fínt. Fínn matur, fínt hótel og mjög skemmtileg borg. Það er búið að vera fínt að vera í smá sól og aðeins hærra hitastigi en heima á Íslandi. Við tökum það líka með okkur að æfa á grasi.
Vellirnir sem við erum búnir að æfa á hafa verið fínir og núna förum við að æfa á aðalvellinum. Þetta er mjög góð tilfinning,“ sagði Nikolaj að lokum.