Markmiðið að gera betur en Blikarnir

Ari í eldlínunni í kvöld.
Ari í eldlínunni í kvöld. Ljósmynd/Víkingur

„Þetta er mjög svekkjandi,“ sagði Ari Sigurpálsson, leikmaður Víkings úr Reykjavík, í samtali við mbl.is eftir tapið gegn Panathinaikos, 2:0, í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildarinnar í fótbolta í Aþenu í kvöld.

Panathinaikos tryggði sér sæti í næstu umferð með því að skora annað markið í uppbótartíma, þegar allt stefndi í framlengingu.

„Við vissum að við þyrftum að verjast og við gerðum það mjög vel. Við fengum færi til að skora í fyrri hálfleik og ég fékk m.a. tækifæri. Þetta er virkilega svekkjandi en svona er þetta. Það er stutt á milli í þessu.“

„Þegar við fórum í þessa keppni var markmiðið að ná í eitt stig og gera betur en Blikarnir gerðu árið áður. Maður er svekktur með hvernig þetta fór en líka rosalega stoltur af liðinu.

Það er febrúar og við erum búnir að vera duglegir að æfa í alls konar veðrum og þetta er búið að vera mikill dugnaður.

Þetta er reynsla sem fáir sem spila á Íslandi geta fengið. Við nýtum þetta og erum hungraðir að gera betur í framtíðinni,“ sagði Ari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert