„Alltaf, frá fæðingu. Pabbi spilaði með Víkingum frá 1927 til 1933 þannig að ég átti enga möguleika á öðru,“ sagði Björn Friðgeir Björnsson, sem hefur alla tíð verið harður stuðningsmaður Víkings úr Reykjavík, í samtali við mbl.is fyrir leik karlaliðsins gegn Panathinaikos í Sambandsdeildinni í fótbolta í Aþenu í kvöld.
Hann var í Helsinki þegar Víkingur vann fyrri leikinn 2:1 síðastliðið fimmtudagskvöld.
„Þetta er bara ævintýri, þetta er draumurinn. Við erum að njóta uppskeru eftir hörkuvinnu frá mörgum góðum Víkingum. Þetta er uppskera eftir 17 ára vinnu eða svo.
Þetta er það sem menn hafa dreymt um og það sem við erum að uppskera,“ sagði Björn Friðgeir í samtali við mbl.is á The James Joyce barnum í Aþenu.
Spurður hvernig tilfinningu hann hefði fyrir leiknum sagði Björn Friðgeir:
„Þetta getur farið allavega. Við vitum það núna og vissum það fyrir síðasta leik að þetta gæti alveg farið illa. Það getur það ennþá en við fáum að dreyma og vonandi sem lengst inn í leikinn.“
Treystirðu þér til þess að spá fyrir um úrslit í leiknum í kvöld?
„Ég sagði fyrir fyrri leikinn að við gætum unnið og að við gætum tapað illa. Ég held að það sé ólíklegt að við vinnum leikinn í kvöld. Við gætum það, við gætum tapað illa en við gætum líka farið áfram. Það er allt opið.
Við treystum á strákana því þeir hafa komið okkur hingað. Við höfum fulla trú á þeim. Sama hvernig fer þá er þetta ferðalag í vetur búið að vera stórfenglegt, og þetta ferðalag síðustu sex árin eftir að Arnar tók við hefur verið draumur,“ sagði hann að lokum.