Pablo með en ekki með

Pablo Punyed fyrir æfingu á ólympíuleikvanginum í Aþenu í gær.
Pablo Punyed fyrir æfingu á ólympíuleikvanginum í Aþenu í gær. Ljósmynd/Víkingur

Víkingur úr Reykjavík endurheimtir þrjá lykilmenn fyrir síðari leik sinn gegn Panathinaikos í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildar karla í fótbolta í kvöld.

Fyrirliðinn Nikolaj Hansen og Karl Friðleifur Gunnarsson snúa aftur eftir að hafa tekið út leikbann og Gunnar Vatnhamar hefur jafnað sig á meiðslum.

„Það eru allir nema einn leikfærir sem eru með okkur núna. Vissulega eru Atli [Þór Jónasson] og Róbert [Orri Þorkelsson] heima, þeir voru ekki klárir í þetta verkefni. Því miður gátum við ekki tekið þá með okkur út, það var ekki hægt í þetta skiptið. Það hefði verið gaman að hafa þá samt sem áður hérna úti.

Gunnar Vatnhamar er búinn að æfa með okkur á fullu síðan við komum út. Hann er búinn að fá heilar æfingar í nokkra daga og er leikfær. Það vantar að sjálfsögðu aðeins upp á leikformið hans. Hann er búinn að vera frá í tvo mánuði en það er aldrei að vita hvort við getum nýtt hann á morgun [í kvöld], sagði Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkings, í samtali við Morgunblaðið.

Sölvi Geir Ottesen á fréttamannafundi í Aþenu í gær.
Sölvi Geir Ottesen á fréttamannafundi í Aþenu í gær. Ljósmynd/Víkingur

Alls ekki leikfær

Eini leikmaðurinn sem er með Víkingum í Aþenu en mun ekki spila er Pablo Punyed sem er hægt og bítandi að jafna sig á krossbandsslitum í hné.

„Hann er með okkur úti núna en er alls ekki leikfær. Hann fór með okkur út því hann er stór karakter í hópnum og mikill leiðtogi. Við þurfum á allri hjálp sem við getum fengið að halda. Að fá hann með út var mjög gott fyrir hópinn.

Það er ekki spurning. En það er líka ánægjulegt að sjá að hann er byrjaður að sparka í bolta og er búinn að vera í hinum og þessum boltaæfingum, sem er rosalega skemmtilegt þegar maður er búinn að vera lengi frá. Það er gaman að sjá hann aftur í takkaskónum,“ útskýrði þjálfarinn.

Ítarlegt viðtal við Sölva Geir má lesa á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert