Sigur í fyrsta leik án Gylfa

Jónatan Ingi Jónsson skoraði tvö mörk.
Jónatan Ingi Jónsson skoraði tvö mörk. mbl.is/Arnþór Birkisson

Valur hafði betur gegn Þrótti úr Reykjavík, 3:1, í deildabikar karla í fótbolta. Leikið var á heimavelli Þróttar í Laugardalnum.

Jónatan Ingi Jónsson kom Val yfir á 18. mínútu en Þróttur jafnaði á 51. mínútu þegar Orri Sigurður Ómarsson skoraði sjálfsmark.

Jónatan var aftur á ferðinni á 81. mínútu með sitt annað mark og annað mark Vals og Gísli Laxdal Unnarsson skoraði þriðja markið á 85. mínútu.  

Valur er í toppsæti riðilsins með sjö stig og Þróttur í öðru sæti með sex.

ÍA fór upp í þriðja sæti riðilsins með sigri á Grindavík í Akraneshöllinni, 2:0. Hinrik Harðarson gerði fyrra markið á 25. mínútu og Gabríel Snær Gunnarsson annað markið á 68. mínútu.

ÍA er með fimm stig en Grindavík í fjórða sæti með þrjú.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert