Eins og gefur að skilja var Sveinn Gísli Þorkelsson, leikmaður Víkings úr Reykjavík, svekktur eftir tap liðsins gegn Panathinaikos í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildarinnar.
Panathinaikos skoraði sigurmark einvígisins í uppbótartíma, vann leikinn 2:0 og einvígið 3:2.
„Maður er ógeðslega svekktur, það er engin spurning. Mér fannst við búnir að vinna fyrir betri úrslitum í þessum leik. Það var ógeðslega svekkjandi hvernig þetta fór og mér fannst við eiga meira skilið,“ sagði hann.
Sveinn er stoltur af afreki Víkings, þrátt fyrir svekkjandi úrslit í kvöld. „Maður er stoltur af strákunum og liðinu og þetta er magnað afrek,“ sagði Sveinn. Hann lék báða leikina gegn Panathinaikos og stóð sig með prýði.
„Fyrir utan úrslitin var þetta mjög gaman og gott að fá traustið. Það er hægt að byggja ofan á þetta. Þetta eru leikirnir sem maður vill spila. Maður lærir mikið af þessu.“
Hann vonast til að íslensk lið feti í fótspor Víkinga og að þeir sjálfir komist aftur langt í Evrópukeppni.
„Maður heldur með íslensku liðunum í Evrópu. Vonandi fáum við að gera þetta aftur,“ sagði Sveinn.