Tekur tíma að jafna sig eftir svona

Sölvi Geir Ottesen á hliðarlínunni í kvöld.
Sölvi Geir Ottesen á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Víkingur

„Menn eru í sárum í klefanum og það tekur tíma að jafna sig eftir svona tap,“ sagði Sölvi Geir Ottesen, þjálfari karlaliðs Víkings í fótbolta, í samtali við mbl.is eftir tapið gegn Panathinaikos í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildarinnar í kvöld.

Panathinaikos skoraði sigurmark einvígisins í uppbótartíma og sátu Víkingar eftir með sárt enni. Þrátt fyrir það geta Sölvi og lærisveinar hans litið stoltir til baka.

„Þegar menn eru búnir að jafna sig geta þeir litið stoltir til baka á frammistöðuna og þetta ævintýri. Þetta er magnaður árangur sem þessir strákar hafa náð,“ sagði Sölvi.

Hann var ánægður með spilamennsku Víkinga í kvöld, enda jafn leikur gegn sterku grísku liði.

„Leikurinn í dag var flott spilaður og þeir lögðu allt í þetta, eins og í fyrri leiknum. Þeir tæmdu tankinn og ég gat ekki beðið um meira. Það þurfti lúxusmark frá hinum til að brjóta okkur niður.

Eftir það vorum við ekki með kraft til að koma til baka, þótt við höfum verið nálægt því. Þetta er virkilega svekkjandi niðurstaða. Það sýnir hvað þessir strákar eru miklir sigurvegarar að vera ekki sáttir við að tapa í umspili um sæti í 16-liða úrslitum,“ sagði Sölvi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert