„Þetta Evrópuævintýri er eitthvað annað“

Reynir Örn Harðarson kátur á The James Joyce barnum í …
Reynir Örn Harðarson kátur á The James Joyce barnum í Aþenu. mbl.is/Gunnar Egill

„Heyrðu nei, ég er að austan. Ég er frá Neskaupstað og flutti suður 18 ára gamall. Árið 2018 keypti ég hús í Breiðagerði. Ég er með börn og þá svona sjálfkrafa komst maður inn í samfélagið og varð Víkingur. Ég hafði aldrei fundið fyrir þessu áður,“ sagði Reynir Örn Harðarson, stuðningsmaður Víkings úr Reykjavík, spurður hvort hann hafi verið Víkingur alla tíð.

Karlalið Víkings mætir Panathinaikos í Sambandsdeildinni í fótbolta í Aþenu í kvöld. Þangað er Reynir Örn, sem er í viðburðaráði félagsins, mættur til að styðja sína menn.

„Ég var búinn að búa á nokkrum stöðum en aldrei fundið fyrir svona ákefð í að vera svona stuðningsmaður félags. Ég féll inn í hópinn, var tekið opnum örmum og er búinn að vera Víkingur síðan ég flutti í hverfið,“ sagði hann í samtali við mbl.is á barnum The James Joyce í Aþenu.

Uppgangurinn hefur verið mikill frá því Reynir Örn hóf að styðja Víking.

„Ég þekki ekki Víking eins og margir þekkja Víking, fallandi úr efstu deild niður í fyrstu deild og aftur upp í efstu, mætandi á leiki og sjá flottan fótbolta en ekki endilega sigra. En eins og ég þekki Víking eru þetta bara búnir að vera sigrar.“

Átta sig kannski ekki á hvað þetta er stórt

Spurður hvernig hann hafi upplifað Evrópuævintýri Víkinga, sem eiga möguleika á að komast í 16-liða úrslit Sambandsdeildarinnar, sagði Reynir Örn:

„Þetta Evrópuævintýri er náttúrlega bara allt annað. Við djókum svolítið með það að strákurinn okkar, sem er níu ára og búinn að æfa með Víkingi í 5-6 ár, hann þekkir bara sigra. Hann þekkir ekkert annað.

Kannski þarf ég að ná honum aðeins niður á jörðina en þetta Evrópuævintýri er bara eitthvað annað dæmi. Það er ótrúlega gaman að vera hluti af og taka þátt í þessu. Þetta eru forréttindi.

Maður er litaður af þessu vissulega en ég held að almennir stuðningsmenn annarra liða og Íslendingar átti sig ekki alveg á því hvað þetta er stórt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert