Allt jafnt í fyrsta leik Íslands í Þjóðadeildinni

Ísland og Sviss gerðu markalaust jafntefli í fyrstu umferð A-deildar Þjóðadeildar kvenna í knattspyrnu í Zürich í kvöld.

Ísland og Sviss eru því bæði með eitt stig eftir fyrsta leik en Frakkland og Noregur er einnig í riðlinum. Þau mætast síðar í kvöld.

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Íslands, gerði alls fimm breytingar á liði Íslands frá síðasta leik en Dagný Brynjarsdóttir kom m.a. inn í byrjunarliðið og spilaði þar með sinn fyrsta landsleik frá árinu 2023.

Íslenska liðið var í smá vandræðum með að finna taktinn fyrstu mínúturnar og gekk illa að halda í boltann. Þegar leið á leikinn náði Ísland þó betri takti og var heilt yfir betri aðilinn í fyrri hálfleiknum.

Alexandra Jóhannsdóttir fékk fyrsta færi Íslands á 11. mínútu en skot hennar úr mjög góðri stöðu í teignum fór hátt yfir markið. Skömmu síðar stal Emilía Kiær Ásgeirsdóttir boltanum rétt fyrir utan teig en setti boltann einnig yfir markið.

Sydney Schertenleib fékk besta færi heimakvenna í fyrri hálfleiknum 20. mínútu en skot hennar úr teignum fór þá rétt framhjá nærstönginni. Tíu mínútum síðar átti Karólína Lea Vilhjálmsdóttir svo hörkuskot úr D-boganum en Elvira Herzog sá við henni með virkilega góðri markvörslu.

Bæði lið áttu svo skottilraunir í seinni hluta fyrri hálfleiks en ekkert sem olli markvörðum liðanna miklum áhyggjum. Þegar liðin gengu til búiningsherbergja að loknum heldur bragðdaufum fyrri hálfleik var staðan enn markalaus.

Svisslendingar fengu ágætis færi strax í upphafi seinni hálfleiks. Schertenleib gerði þá frábærlega gegn Ingibjörgu Sigurðardóttur í teignum en Guðrún Arnardóttir náði að pota boltanum frá í markteignum og bjarga því að ekki færi verr.

Glódís Perla Viggósdóttir komst svo nálægt því að koma Íslandi yfir á 54. mínútu. Karólína Lea átti þá góða aukaspyrnu utan af kanti beint á kollinn á Glódísi á nærsvæðinu en fastur skalli hennar fór hárfínt framhjá markinu.

Á 73. mínútu fékk Sveindís Jane svo hörku færi. Hún komst þá alein upp í skyndisókn eftir hornspyrnu Svisslendinga og gerði frábærlega í að koma sér í skotfæri í teignum, en setti boltann hins vegar himinhátt yfir markið.

Fleiri urðu færin ekki og fjaraði leikurinn hægt og rólega út. Liðin deildu því stigunum úr leiknum þar sem hvorugu liðinu tókst að skora áður en yfir lauk.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Sviss 0:0 Ísland opna loka
90. mín. Sviss fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka