Arnar: „Mér er illa við að nefna nöfn“

„Það má ekki gleyma því að við eigum leikmenn sem hafa flogið undir radarinn,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, nýráðinn þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í Dagmálum.

Arnar, sem er 51 árs gamall, var ráðinn landsliðsþjálfari þann 15. janúar eftir að hafa stýrt Víkingi úr Reykjavík frá árinu 2018 en liðið varð tvívegis Íslandsmeistari undir stjórn Arnars og fjórum sinnum bikarmeistari.

Hugurinn reikar

Margir af leikmönnum íslenska landsliðsins í dag spila í sterkum deildum í Evrópu en fá kannski ekki alltaf athyglina sem þeir eiga skilið.

„Þetta eru strákar sem hafa verið að spila í hæsta gæðaflokki í langan tíma,“ sagði Arnar.

„Mér er illa við að nefna nöfn en ég var að horfa á leik um daginn í sjónvarpinu, Venezia á móti Inter Mílanó, og við eigum tvo stráka þar sem voru að spila á móti Inter, Bjarka Stein og Mikael Ellert. Þetta var útileikur hjá Venezia og þetta er akkúrat leikurinn sem maður sér fyrir sér í þessum landsliðsumhverfi, hár gæðastuðull á erfiðum útivelli.

Þá fer hugurinn strax að reika því það er lítið búið að tala um þessa stráka. Það eru fleiri strákar þarna úti sem eru að spila í mjög háum gæðaflokki, án þess kannski að tekið sé eftir því,“ sagði Arnar meðal annars.

Viðtalið við Arnar í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

Arnar Gunnlaugsson.
Arnar Gunnlaugsson. mbl.is/Karítas
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert