Óvæntur sigur ÍR - Sannfærandi FH-ingar

Guðjón Máni Magnússon og Hákon Dagur Matthíasson.
Guðjón Máni Magnússon og Hákon Dagur Matthíasson. Ljósmynd/ÍR

ÍR-ingar gerðu sér lítið fyrir og unnu góðan sigur gegn Aftureldingu, 3:1, í deildabikar karla í fótbolta í Egilshöllinni í gærkvöld.

Hákon Dagur Matthíasson, sem gekk alfarið til liðs við ÍR frá Víkingi Reykjavík í byrjun árs, skoraði tvö mörk fyrir ÍR og Guðjón Máni Magnússon eitt. Aron Jóhannsson skoraði mark Aftureldingar.

Afturelding er áfram á toppi riðilsins með sex stig eftir þrjá leiki en ÍR er með jafn mörg stig í öðru sætinu eftir tvo leiki.

Í sama riðli vann FH öruggan 3:0-sigur gegn HK í Kórnum í gærkvöldi.

Kjartan Kári Halldórsson, Bragi Karl Bjarkason og Arnór Borg Guðjohnsen skoruðu mörk FH-inga en Tumi Þorvarsson, leikmaður HK, fékk rautt spjald undir lok leiksins.

FH er í þriðja sæti riðilsins með þrjú stig en HK er á botninum með engin stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert