Meistaraflokkur karla Aftureldingar mætti til Varmár í morgunsárið og kom að liðsrútu félagsins í hræðilegu standi en um nóttina höfðu tvær rúður á rútunni verið skemmdar.
Í samtali við mbl.is sagði Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar, að liðið væri á leiðinni til Kanaríeyja í æfingarferð og hefði ætlað að nota rútuna til að komast upp á flugvöll.
Það var ekki hægt og þurftu leikmenn og starfsmenn að fara á sínum bílum og einnig ræsa út fjölskyldumeðlimi til að koma sér upp á flugstöð.
Bæði framrúðan og önnur rúða eru brotnar og segir Magnús að erfitt verði að gera við þær en rútan er 40 ára gömul og því erfitt að finna nýjar rúður í hana.
Meistaraflokkur Aftureldingar hefur notað þessa rútu lengi meðal annars til að koma sér á leiki.
Faðir Magnúsar hefur sett líf og sál í rútuna og því er mjög sorglegt að koma að henni í þessu standi, sagði Magnús.