Landsliðskonan Sveindís Jane Jónsdóttir er óánægð með spilatíma sinn hjá þýska knattspyrnufélaginu Wolfsburg.
Sveindís, sem verður 24 ára á árinu, hefur verið á mála hjá Wolfsburg í fjögur ár. Hlutverk hennar hefur minnkað á þessu tímabili og hún er greinilega ósátt við það.
Í samtali við RÚV sagði Sveindís að hún gæti fært sig um í sumar en þá rennur samningur hennar við þýska félagið út.
„Maður vill auðvitað alltaf spilað en nei, ég fæ ekki útskýringar. Ég skil eiginlega ekki af hverju ég fæ ekki að spila meira.
Mér finnst ég eiga skilið fleiri mínútur en þjálfarinn velur liðið og ég hef greinilega ekki verið í uppáhaldi upp á síðkastið.“
Varðandi næstu skref segist Sveindís vera opin fyrir öllu.
„Ég er allavega opin fyrir öllu. Ég verð samningslaus eftir tímabilið þannig þetta eru skemmtilegir tímar.
Ég hef ekki lokað á neitt né ákveðið hvað ég ætla að gera. Ég gæti verið áfram hjá Wolfsburg en eins og staðan er núna er það ekki rosalega spennandi.
Vonandi fæ ég fleiri mínútur seinni hluta tímabils og svo skoða ég mig um,“ bætti Sveindís við í samtali við RÚV.