Frakkar eru í efsta sæti 2. riðils A-deildar í Þjóðadeild kvenna í fótbolta að tveimur umferðum loknum eftir sigur gegn Íslandi í Le Mans í kvöld, 3:2.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir skoruðu mörk Íslands og minnkuðu muninn í 2:1 og 3:2.
Frakkland er með sex stig, Noregur þrjú, Ísland eitt og Sviss eitt stig. Noregur vann Sviss 2:1 fyrr í kvöld.
Franska liðið var með undirtökin frá byrjun leiks en Ísland fékk þó fyrsta alvöru marktækifærið á 11. mínútu. Sveindís Jane Jónsdóttir stakk sér þá inn fyrir bakvörðinn hægra megin, lék inn í vítateiginn og renndi boltanum út á Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur sem hitti ekki markið úr góðu færi í miðjum vítateig.
Frakkar komust yfir á 23. mínútu. Eftir misheppnað spil út frá marki Íslands náði Samoura boltanum og skaut í varnarmann. Hann hrökk á Kadidiatou Diani sem skoraði með góu skoti í stöngina fjær og inn, 1:0.
Frakkar tóku öll völd í kjölfarið og bættu vð marki á 28. mínútu. Sakina Karchaoui átti skemmtilega hælspyrnu á vítateigslínunni og Marie-Antoinette Katoto skoraði með föstu skoti í vinstra hornið niðri, 2:0.
En Ísland komst inn í leikinn á 36. mínútu. Eftir góða rispu hennar var brotið á henni skammt utan vítateigs. Karólína Lea tók spyrnuna og skoraði með skoti í varnarmann og inn, 2:1.
Franska liðið var áfram sterkari aðilinn eftir hlé og var nærri því að skora þriðja markið á 61. mínútu þegar Kadidiatou Diani skaut frá vítateig í þverslána og út.
En á 65. mínútu komust Frakkar í 3:1. Sandy Baltimore fékk boltann í hraðri sókn, lék sjálf í átt að vítateig og skaut þaðan föstu skoti í hægra hornið.
Ísland komst strax inn í leikinn á ný. Á 68. mínútu tók Karólína Lea Vilhjálmsdóttir hornspyrnu frá vinstri, markverðinum mistókst að slá boltann frá og Ingibjörg Sigurðardóttir skoraði af markteig, 3:2.
Þar með var spenna í leiknum fram á lokakaflann og íslenska liðið sótti í sig veðrið og komst framar á völlinn en fyrr í leiknum. Hlín Eiríksdóttir átti fastan skalla á markið frá vítateig eftir fyrirgjöf Sveindísar á 84. mínútu en beint á markvörðinn.
Íslenska liðið varðist vel og barðist af krafti en vantaði meiri yfirvegun þegar það var með boltann og skapaði sér of fá sóknarfæri. En tvö mörk gegn Frökkum á útivelli og naumt tap er ekkert til að skammast sín fyrir.