„Ég er stoltur af vinnslunni í liðinu, við vorum að allan tímann," sagði Þorsteinn Halldórsson þjálfari kvennalandsliðsins í knattspyrnu eftir ósigurinn gegn Frökkum, 3:2, í Þjóðadeildinni í Le Mans í kvöld.
„Auðvitað voru Frakkar meira með boltann eins og við vissum fyrirfram en við spiluðum varnarleikinn heilt yfir þokkalega vel," sagði Þorsteinn við Almarr Ormarsson á RÚV eftir leikinn.
„Við þorðum alveg hlutum en síðasti þriðjungurinn var kannski erfiður fyrir okkur. Samt skoruðum við tvö mörk á útivelli á móti Frökkum sem er ákveðinn styrkur. Við lendum 2:0 undir og þá leit þetta illa út en við komum til baka og minnkuðum muninn. Lentum aftur tveimur mörkum undir og komum strax til baka.
Heilt yfir gerðum við þeim erfitt fyrir en auðvitað hefðum við viljað fá einhver augnablik eftir að við minnkuðum muninn en þau voru fá. Þær náðu að drepa leikinn síðasta korterið og fengu að tefja ógeðslega mikið, taka allt tempo úr leiknum í föstum leikatriðum," sagði Þorsteinn Halldórsson við RÚV.