Valsmenn mega gera það sem þeim sýnist

Kári Árnason til vinstri, á blaðamannafundi í dag þar sem …
Kári Árnason til vinstri, á blaðamannafundi í dag þar sem Gylfi Þór Sigurðsson var kynntur til leiks hjá Víkingi. mbl.is/Karítas

„Við reyndum þegar hann kom heim og það hafðist ári seinna,“ sagði Kári Árnason, yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingi úr Reykjavík, í samtali við mbl.is um kaup félagsins á Gylfa Þór Sigurðssyni af Val.

„Þetta er leikmaður sem styrkir okkur gríðarlega mikið. Hann getur spilað fremstu stöðurnar og á miðjunni. Við erum komnir með helvíti stóran hóp og ætlum okkur stóra hluti. Þetta hjálpar okkur klárlega í þeirri vegferð,“ sagði Kári.

Forráðamenn Vals voru mjög ósáttir við Gylfa í kringum félagaskiptin og sökuðu hann um óheiðarleika og að leggja sig ekki fram í sínum síðasta leik með Val, gegn ÍA í deildabikarnum.

„Ég skil að þeir hafi verið ósáttir en mér fannst sérstakt hvernig þeir voru eftir að þetta var komið í gegn. Þeir mega gera það sem þeim sýnist. Ég sá ekkert athugavert við þessi félagaskipti. Þetta eru félagaskipti eins og hver önnur.

Þau voru unnin með Val og við fundum niðurstöðu. Í lok dags sneri þetta um töluna sem þeir voru tilbúnir að sætta sig við. Við náðum saman með það og þetta endaði svona,“ sagði Kári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert