Voru bara skíthræddar í lokin

Sveindís Jane Jónsdóttir í baráttu við varnarmenn Frakka.
Sveindís Jane Jónsdóttir í baráttu við varnarmenn Frakka. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Ég er stolt af stelpunum, við lögðum allt í þetta en gerðum mistök sem þær nýttu sér vel," sagði Sveindís Jane Jónsdóttir eftir ósigur Íslands gegn Frakklandi, 3:2, í Þjóðadeild kvenna í fótbolta í Le Mans í kvöld.

„Við spiluðum á móti heimsklassa leikmönnum sem nýta sér mistökin sem við gerum. En við skoruðum tvö mörk hjá þeim og þær voru bara skíthræddar hérna í lokin," sagði Sveindís við Almarr Ormarsson hjá RÚV eftir leikinn.

„Við viljum auðvitað fá þrjú stig, alla vega eitt, þegar við skorum tvö mörk í leik. Það er ekki ákjósanlegt að fá á sig þrjú mörk og við hefðum átt að verjast betur.

Tvö mörk gegn heimsklassaliði hefði átt að duga en við tökum þær heima," sagði Sveindís.

Hún fékk gula spjaldið fyrir að mótmæla af krafti þegar hún taldi sig eiga að fá innkast. Spurð um dómgæsluna sagði hún:

„Mér fannst ósanngjarnt að við fengum gul spjöld hægri vinstri en þær gátu tafið allan leikinn og dómarinn gerði ekki neitt í því. Ég veit ekki alveg hvar línan var en hún virtist bara ætla að dæma á okkur."

Næstu leikir eru heima gegn Noregi og Sviss í byrjun apríl og þar ættu að liggja bestu sigurmöguleikar Íslands í riðlinum.

„Já, við ætlum að vinna heimaleikina," sagði Sveindís Jane Jónsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert