Kári Árnason, yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingi í Reykjavík, er hæstánægður með kaup félagsins á Gylfa Þór Sigurðssyni frá Val en Gylfi var kynntur sem nýr leikmaður félagsins á blaðamannafundi í gær.
„Ég talaði við Sigurð pabba hans sem var umboðsmaðurinn hans í þessu máli. Ég fann fyrir því að Gylfi vildi koma og við erum ánægðir með að hann sé kominn,“ sagði Kári við mbl.is.
Víkingarnir vildu fá Gylfa í sínar raðir fyrir síðasta tímabil en miðjumaðurinn ákvað að semja frekar á Hlíðarenda.
„Það var ákvörðun sem hann tók. Valsmenn voru búnir að vera í löngu sambandi við hann þegar hann var að koma heim. Það skiptir í rauninni engu máli. Hann er kominn núna og við erum gríðarlega ánægð með það.“
Víkingur greiðir um 20 milljónir króna fyrir Gylfa og er hann dýrasti leikmaðurinn sem skiptir á milli tveggja íslenskra félaga.
„Ég skil að Valur vilji fá háa upphæð fyrir einn besta leikmann Íslands fyrr og síðar. Það er talað um hann í sömu setningu og Eið Smára og Ásgeir Sigurvinsson. Landslagið er að breytast og upphæðirnar eru að hækka. Það eru ekki mörg lið sem geta keypt innanlands ef þetta eru upphæðirnar.“
Gylfi og Kári náðu mögnuðum árangri með íslenska landsliðinu á sínum tíma og voru lykilmenn í liðinu sem lék á lokamóti EM 2016 og HM 2018.
„Hann var frábær í því og ég veit hvaða mann hann hefur að geyma. Ég þekki hann mjög vel og hvernig hann er sem liðsmaður. Ef ég hefði ekki bara jákvæða hluti um það að segja væri hann ekki hér,“ sagði Kári.