Fram gerði góða ferð á Akureyri og vann öruggan sigur á KA, 5:2, í 2. riðli A-deildar karla í deildabikarnum í knattspyrnu í Boganum í kvöld.
Með sigrinum tyllti Fram sér á toppinn í riðlinum þar sem liðið er með níu stig. KA er í fjórða sæti með fimm stig.
Jakob Byström kom Fram yfir á 20. mínútu en mínútu síðar jafnaði Hallgrímur Mar Steingrímsson metin fyrir KA.
Skömmu síðar, á 29. mínútu, skoraði Már Ægisson annað mark Fram og Guðmundur Magnússon bætti við þriðja markinu fyrir leikhlé. Staðan því 3:1 í hálfleik.
Í upphafi síðari hálfleiks skoraði Þorri Stefán Þorbjörnsson fjórða mark Fram og Guðmundur bætti við öðru marki sínu og fimmta marki gestanna úr Úlfarsárdal eftir klukkutíma leik.
Þremur mínútum fyrir leikslok skoruðu Framarar sjálfsmark og löguðu þannig stöðuna aðeins fyrir KA.