Völtuðu yfir nýliðana - Tíu Þórsarar sigruðu

Eyþór Aron Wöhler skoraði úr vítaspyrnu í dag.
Eyþór Aron Wöhler skoraði úr vítaspyrnu í dag. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Fylkir valtaði yfir nýliðana í 1. deildinni, Völsung, 6:0, í riðli tvö í deildabikar karla í knattspyrnu á Húsavík í dag.

Theodór Ingi Óskarsson skoraði þrennu og Ragnar Bragi Sveinsson, Eyþór Aron Wöhler og Guðmundur Tyrfingsson skorðu eitt mark hver.

Fylkir er í þriðja sæti riðilsins með átta stig en Völsungur er á botninum með eitt stig.

Tíu menn Þórs náðu í þrjú stig

Í riðli þrjú vann Þór frá Akureyri nauman sigur gegn ÍR, 1:0, í Boganum í dag.

Eftir markalausan fyrri hálfleik fékk Ibrahima Balde, leikmaður Þórs, rautt spjald. Þrátt fyrir það skoraði Ingimar Arnar Kristjánsson sigurmark Þórsara á 72. mínútu.

ÍR er í öðru sæti með sex stig, jafnmörg stig og Þór í þriðja sætinu. 

Að lokum gerðu Leiknir og Stjarnan 1:1-jafntefli í riðli fjögur í Breiðholtinu í dag.

Andri Rúnar Bjarnason kom Stjörnunni yfir á 60. mínútu. Karan Gurung jafnaði metin fyrir Leikni í uppbótartíma.

Stjarnan er í þriðja sæti riðilsins með sjö stig en Leiknir er í fimmta sæti með tvö stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert