Í byrjun vikunnar var nokkuð óvænt tilkynnt að danski knattspyrnumaðurinn Tobias Thomsen væri búinn að semja við Íslandsmeistara Breiðabliks. Nafnið er íslenskum knattspyrnumönnum að góðu kunnugt enda lék Tobias með KR og Val frá 2017 til 2020 og skoraði 18 mörk í 63 leikjum í efstu deild. Varð hann Íslandsmeistari með Val árið 2018 og KR árið 2019.
Tobias, sem er 32 ára, kom frá portúgalska B-deildar liðinu Torreense en þar á undan hafði hann leikið með Hvidovre í heimalandinu.
„Þegar ég fór frá Íslandi þá var það ekki í plönunum að koma aftur, að minnsta kosti ekki sem knattspyrnumaður. Kærastan mín er héðan og því hugsuðum við að við myndum kannski koma aftur á endanum en ekki til þess að spila fótbolta.
En eins og við vitum er aldrei á vísan að róa í fótbolta. Ég var í Portúgal og naut mín þar en um leið og umboðsmaðurinn hafði samband við mig og sagði mér frá þessu tækifæri og hversu mikla áherslu Breiðablik legði á að fá mig var ég ansi viss um að þetta yrði áhugaverður staður að koma aftur til.
Ég hef fylgst með deildinni frá því ég yfirgaf hana og veit hversu vel gekk á síðasta tímabili. Með allt sem tengist gengi íslenskra liða í Evrópukeppni í huga fannst mér þetta frábær tímapunktur til að snúa aftur og vera hluti af þessu,“ sagði Tobias í samtali við Morgunblaðið.
Voru fleiri íslensk félög áhugasöm um að semja við þig?
„Nei, ekkert svoleiðis. Um leið og ég heyrði af áhuga Breiðabliks spurði ég í raun ekki hvort eitthvert annað lið vildi fá mig. Ég vildi koma hingað því Breiðablik er besta liðið í augnablikinu.
Það er frábær samkeppni við Víking og Breiðablik vann auðvitað deildina á síðasta ári. Þetta er liðið til að vera í akkúrat núna,“ sagði sóknarmaðurinn, sem þurfti skyndilega að sætta sig við breyttan veruleika í Portúgal.
„Það tók mig svolítið langan tíma að aðlagast hlutunum þegar ég fór til Portúgals síðasta sumar. Líkamlega var ég svolítið á eftir öllum öðrum því ég kom inn í liðið seint á undirbúningstímabilinu,“ sagði Tobias.
Viðtalið við Tobias má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.