Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mætir Kósovó í tveimur leikjum í umspili um að halda sæti sínu í B-deild Þjóðadeildarinnar síðar í mánuðinum. Fer fyrri leikurinn fram í Kósovó 20. mars og sá seinni á Spáni 23., þar sem Ísland getur ekki spilað heimaleiki sína á heimavelli.
Leikirnir eru þeir fyrstu sem Ísland spilar síðan Arnar Gunnlaugsson tók við liðinu af Åge Hareide og það er komin mikil spenna hjá ofanrituðum. Sú spenna er aðallega vegna þess hve margir spennandi íslenskir leikmenn eru að gera góða hluti um þessar mundir.
Arnar var sérlega góður í því að vinna með góðum sóknarsinnuðum leikmönnum hjá Víkingi og það er nóg úrval af þeim í íslenska landsliðinu, ef allir eru heilir heilsu.
Það hljómar einstaklega spennandi að hafa Orra Stein Óskarsson fremstan og með Albert Guðmundsson og Hákon Arnar Haraldsson nálægt honum að skapa hættu. Þeir eru allir að spila vel á stærstu sviðum Evrópu.
Jón Dagur Þorsteinsson hefur lítið spilað með Herthu Berlín í Þýskalandi en Arnar er góður að stappa stáli í menn sem eru ekki endilega með sjálfstraustið í hæstu hæðum. Ég er byrjaður að telja niður.
Bakvörð Jóhanns má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.