Fram hafnaði tilboði QPR í Þorra

Þorri Stefán Þorbjörnsson í leik með Fram.
Þorri Stefán Þorbjörnsson í leik með Fram. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Fram hafnaði tilboði sem barst í varnarmanninn efnilega, Þorra Stefán Þorbjörnsson, frá enska knattspyrnufélaginu Queens Park Rangers í vetur.

Fótbolti.net greinir frá og hefur eftir Sigurði Hrannari Björnssyni, formanni meistaraflokksráðs karla hjá Fram að viðræður hafi að lokum siglt í strand.

Þorri Stefán er aðeins 18 ára gamall en vakti mikla athygli fyrir góða frammistöðu í vörn Framara á síðasta tímabili.

Félögin náðu ekki saman

„Fyrsta tilboð frá QPR barst um miðjan desember, og í kjölfarið hittum við fulltrúa þeirra og komumst að því að þeir séu búnir að fylgjast lengi með Þorra. Við komum síðan með móttilboð og þannig fór þetta fram og til baka næstu vikurnar.

Í millitíðinni buðu þeir Þorra út og sýndu honum aðstæður. Síðan á endanum náðu Fram og QPR ekki saman um kaupverð og málinu þar með lokið,“ útskýrði Sigurður Hrannar í samtali við Fótbolta.net.

QPR leikur í ensku B-deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert