Ísland þrettánda besta þjóð heims

Íslenska kvennalandsliðið er í 13. sæti á FIFA-listanum.
Íslenska kvennalandsliðið er í 13. sæti á FIFA-listanum. Ljósmynd/Alex Nicodim

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu er í 13. sæti á nýjum styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, sem birtur var í dag og hefur aldrei verið ofar.

Ísland komst einnig í 13. sæti á síðasta ári en var komið niður í 14. sæti fyrir útgáfu nýs lista, sem má sjá hér.

Hoppar liðið upp um eitt sæti þrátt fyrir að hafa tapað fyrir Frakklandi og gert jafntefli við Sviss í síðasta landsleikjaglugga, er keppni í Þjóðadeildinni hófst.

Efstu fjórar þjóðirnar eru óbreyttar þar sem Bandaríkin eru á toppnum, Spánn í öðru sæti, Þýskaland í því þriðja og England í fjórða sæti.

Norðurlandaþjóðirnar sterkar

Hástökkvari á listanum er Japan sem fer upp um þrjú sæti og er nú í því fimmta.

Norðurlandaþjóðirnar eru margar á meðal þeirra sterkustu í heiminum þar sem Svíþjóð er í sjöunda sæti, Danmörk í 12. sæti, Ísland sem áður segir í 13. sæti og Noregur í 15. sæti.

Finnland kemur svo í 25. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert