Tveir af nýjum leikmönnum KR skoruðu í gærkvöld þegar Vesturbæjarliðið sigraði Stjörnuna, 3:1, í Garðabæ og tryggði sér sæti í undanúrslitum deildabikars karla í fótbolta.
KR mætir því Fylki í undanúrslitum keppninnar á föstudagskvöldið kemur.
Eiður Gauti Sæbjörnsson, sem kom til KR frá HK, skoraði afar sérstakt mark þegar hann kom KR í 1:0, eftir mikil mistök reynsluboltans Guðmundar Kristjánssonar í vörn Stjörnunnar.
Í uppbótartíma leiksins skoraði svo Róbert Elís Hlynsson mark af 40 metra færi, yfir Árna Snæ Ólafsson í marki Stjörnunnar, en Róbert kom til KR frá ÍR í vetur.
Í millitíðinni skoraði Gyrðir Hrafn Guðbrandsson annað mark KR en mörkin má sjá á X-síðu KR-inga:
Mörk úr leik KR og Stjörnunnar á Samsung-velli í gær. Njótið vel. pic.twitter.com/3leFEaqmH3
— KR Reykjavik FC (@KRreykjavik) March 10, 2025