„Það eina sem ég þarf að passa mig á er að ofhugsa ekki hlutina því það er svo langt í fyrsta leik,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, nýráðinn þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í Dagmálum.
Arnar, sem er 51 árs gamall, var ráðinn landsliðsþjálfari þann 15. janúar eftir að hafa stýrt Víkingi úr Reykjavík frá árinu 2018 en liðið varð tvívegis Íslandsmeistari undir stjórn Arnars og fjórum sinnum bikarmeistari.
Arnar er farinn að mynda sér skoðanir á því hvernig hann vill að landsliðið spili undir sinni stjórn.
„Ég er með nokkrar hugmyndir hvað þetta varðar og ég hef oft talað fyrir því að það sé mikilvægt að vera góður í öllu, ekki festast í einhverju ákveðnu DNA,“ sagði Arnar.
„Miðað við leikmannahópinn sem við höfum þá vil ég að við séum lið sem hleypur mikið og að það sé erfitt að spila á móti okkur. Við þurfum líka að geta haldið í boltann þegar við á.
Við verðum að spila góðan varnarleik og verðum að vera lið sem er stolt af því að þjást aðeins. Tölfræðin okkar í Þjóðadeildinni var ekki nægilega góð og ef þetta hefði verið félagslið þá hefðum við verið í fallbaráttu.
Ég veit ekki hvort að fólk trúir því en ég var með varnarleik á heilanum hjá Víkingi. Mesta vinnan fór í varnarleikinn og mér fannst það takast vel til hjá Víkingi og ég sé ekkert því til fyrirstöðu að það muni ekki takast vel til hjá landsliðinu líka,“ sagði Arnar meðal annars.
Viðtalið við Arnar í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.