ÍR varð í kvöld fjórða og síðasta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum deildabikars karla í knattspyrnu þegar Þór og FH skildu jöfn á Akureyri, 2:2, í lokaleik þriðja riðils A-deildar.
Þórsarar þurftu að vinna leikinn til að ná efsta sætinu og komst í undanúrslitin en ÍR-ingar höfðu lokið sínum leikjum. Liðin enduðu jöfn með 7 stig hvort en ÍR fer áfram á betri markatölu.
Afturelding fékk 6 stig, FH 4 og HK 4 stig í þessum hnífjafna riðli þar sem þrjú stig skildu að efsta og neðsta lið.
Sigfús Fannar Gunnarsson kom Þór yfir en Gils Gíslason svaraði tvisvar fyrir FH-inga sem komust í 2:1. Sigfús skoraði aftur um miðjan síðari hálfleik og jafnaði metin í 2:2 en þar við sat.
ÍR mætir Val í undanúrslitum næsta þriðjudag en Fylkir og KR mætast í hinum undanúrslitaleiknum á föstudagskvöldið.
Það eru því tvö 1. deildarlið komin í undanúrslit og fjögur Reykjavíkurlið slást um deildabikarmeistaratitilinn 2025.