Knattspyrnumaðurinn Samúel Kári Friðjónsson, miðjumaður Stjörnunnar, hefur verið úrskurðaður í tveggja leikja bann fyrir beint rautt spjald sem hann fékk í leik gegn KR í A-deild deildabikarsins um helgina.
Samúel Kári fór sjálfkrafa í eins leiks bann fyrir rauða spjaldið sem hann fékk fyrir glórulausa tæklingu á Gabríel Hrannari Eyjólfssyni, leikmanni KR.
Á fundi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ í dag komst nefndin hins vegar að þeirri niðurstöðu að bæta skyldi einum leik við bannið vegna ofsalegrar framkomu.
Bannið gildir einungis í deildabikarnum, þar sem Stjarnan er úr leik, og tekur Samúel Kári það ekki út fyrr en á næsta ári.