„Ekki að spila á móti einhverjum firmaliðum“

Arnar Gunnlaugsson og Þórir Jóhann Helgason.
Arnar Gunnlaugsson og Þórir Jóhann Helgason. Ljósmynd/Samsett

Knattspyrnumennirnir Þórir Jóhann Helgason og Bjarki Steinn Bjarkason eru í fyrsta landsliðshópi nýja þjálfarans Arnars Gunnlaugssonar eftir nokkra fjarveru.

Þórir Jóhann hefur verið í stóru hlutverki hjá Lecce í ítölsku A-deildinni að undanförnu eftir að hafa verið úti í kuldanum fyrri hluta tímabils og Bjarki Steinn hefur verið að koma inn á sem varamaður hjá Venezia í sömu deild.

„Þeir eru búnir að vera að spila á háu stigi á Ítalíu. Þórir Jóhann er búinn að vera frábær eftir að hann kom inn eftir áramót. Það sýnir líka mjög sterkan karakter. Hann var ekki inni í myndinni hjá sínu liði í haust.

Það er góður karakter að koma sér inn í liðið aftur. Frammistaðan hjá honum í síðasta leik gegn AC Milan, það er ekki eins og hann sé að spila á móti einhverjum firmaliðum. Þetta er hátt stig.

Bjarki var í góðum málum, meiddist svo og er að koma hægt og bítandi inn í hópinn aftur. Hann hefur verið að fá mínútur hér og þar. Þeir sem eru að spila í ítölsku A-deildinni, það er fótbolti sem hentar alþjóðlegum fótbolta.

Fótboltinn er taktískt sterkur, þeir eru mjög agaðir og fagmannlegir. Þannig að þeir eiga klárlega heima í þessum hópi,“ sagði Arnar um Þóri Jóhann og Bjarka Stein á fréttamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert