Orri Steinn Óskarsson, hinn tvítugi sóknarmaður Real Sociedad, er nýr fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu.
Arnar Gunnlaugsson, nýr landsliðsþjálfari, tilkynnti þetta á fréttamannafundi sem nú stendur yfir í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardalnum en þar tilkynnti hann 23 manna hóp fyrir leikina tvo gegn Kósóvó sem fram fara 20. og 23. mars.
Orri Steinn er einn yngsti leikmaðurinn í landsliðshópnum en hann hefur skorað fimm mörk í fyrstu 14 landsleikjum sínum.
Hákon Arnar Haraldsson, 21 árs leikmaður Lille í Frakklandi, er varafyrirliði liðsins.
Arnar sagði að sér hefði fundist rétt að yngri kynslóðin í landsliðinu tæki við þessum ábyrgðarhlutverkum.