Arnar: Lít ekki á starfið sem stökkpall

„Maður hefur farið í leiðangur með Víkingi og í Evrópukeppnina, sem hefur gengið vel, og það hefur vakið athygli út á við,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, nýráðinn þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í Dagmálum.

Arnar, sem er 51 árs gamall, var ráðinn landsliðsþjálfari þann 15. janúar eftir að hafa stýrt Víkingi úr Reykjavík frá árinu 2018 en liðið varð tvívegis Íslandsmeistari undir stjórn Arnars og fjórum sinnum bikarmeistari.

Búinn með þann pakka

Arnar ver sterklega orðaður við þjálfarastöðuna hjá sænska úrvalsdeildarfélaginu Norrköping árið 2023 og voru margir sem vildu sjá Arnar taka skrefið út og þjálfa erlent félagslið.

„Norrköping var alveg spennandi dæmi en ég þarf samt ekki að fara út bara til þess að fara út,“ sagði Arnar.

„Ég gerði það þegar ég var leikmaður og ég er búinn með þann pakka í mínu lífi. Það var engin ævintýraþrá í mér að rífa upp fjölskylduna og flytja út. Þetta snérist fyrst og fremst um það hversu spennandi starfið var, samanborið við það að vera í Víkinni.

Það eru forréttindi að vinna á góðum vinnustað með góðu fólki. Þá fór ég að horfa á landsliðsstarfið og hvort það væri góður vettvangur fyrir mig til þess að ná ennþá betri árangri. Ég lít ekki á þetta starf sem einhvern stökkpall, ég vil vera í þessu starfi til langstíma,“ sagði Arnar meðal annars.

Viðtalið við Arnar í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

Arnar Gunnlaugsson.
Arnar Gunnlaugsson. mbl.is/Karítas
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert