Fyrrverandi landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson kveðst vanur gagnrýni í sinn garð eftir að hann var valinn í fyrsta landsliðshóp Arnars Gunnlaugssonar þrátt fyrir að hafa lítið spilað knattspyrnu undanfarin ár.
Þórður Einarsson, yfirþjálfari hjá yngri flokkum Þróttar í Reykjavík, er einn þeirra sem gagnrýndi valið og sagði það „galið.“
„Ég er orðinn vanur þessari gagnrýni. Ég hef verið að spila vel í Meistaradeildinni hér í Asíu og æfa 100% þannig að ég er klár. Ég hef í raun sjaldan verið hungraðri en akkúrat þessa stundina í að sýna mig og sanna,“ sagði Aron Einar í samtali við RÚV.
Spurður hvort það væri „galið“ að velja hann í landsliðshópinn sagði Aron Einar:
„Við skulum bara sjá til með það. Fólk mál alveg hafa sínar skoðanir og allt það en það er alltaf gömul tugga í fótboltanum að sýna það í verki innan vallar, hvað maður getur og það er planið hjá mér.“