Framarinn skrópaði á æfingu

Alex Freyr Elísson í leik með Fram.
Alex Freyr Elísson í leik með Fram. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Knattspyrnumaðurinn Alex Freyr Elísson, leikmaður Fram, mætti ekki á æfingu liðsins á Marbella á Spáni í gær, þar sem Framarar eru í æfingaferð.

„Ég get staðfest að hann mætti ekki á æfingu í gær og það er óásættanlegt. Ég kann ekki við að vera með mikið af reglum en ég ætlast til að menn mæti alltaf á æfingar.

Við erum búnir að ræða málin hérna innanbúðar, erum búnir að ræða við Alex og taka á þessu,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, í samtali við Fótbolta.net í dag.

Þar kemur fram að Alex Freyr, sem er 27 ára uppalinn Framari, sé að glíma við meiðsli á ökkla. Miðað við orð Rúnars hefði hann venju samkvæmt átt að mæta á æfingu þrátt fyrir að glíma við meiðsli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert