Svíi orðaður við Valsmenn

Srdjan Tufegdzic, þjálfari Vals, þjálfaði Kusu hjá Öster.
Srdjan Tufegdzic, þjálfari Vals, þjálfaði Kusu hjá Öster. mbl.is/Eyþór Árnason

Manasse Kusu, sænskur knattspyrnumaður, er orðaður við Val í sænskum fjölmiðlum en hann hefur leikið með Mjällby og Öster undanfarin ár.

Kusu er 23 ára gamall miðjumaður og kom til Mjällby frá Öster í ágúst á síðasta ári en þar hafði hann leikið undir stjórn Srdans Tufegdzics, núverandi þjálfara Valsmanna. Hann lék fimm leiki með Mjällby á lokaspretti sænsku úrvalsdeildarinnar.

Fotbollskanalen segir í dag að Valur og Landskrona séu meðal þeirra félaga sem hafi samkvæmt heimildum sýnt leikmanninum áhuga. Fram kemur að Mjällby sé aðeins tilbúið til að lána leikmanninn.

Kusu, sem fæddist í Kongó en flutti 12 ára til Svíþjóðar, er uppalinn hjá Norrköping en lék aðeins tólf deildarleiki með liðinu og spilaði aðallega með venslafélaginu Sylvia í C-deildinni. Hann spilaði hins vegar 83 leiki með Öster í B-deildinni á árunum 2021 til 2024 og skoraði í þeim fimm mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert