Fylkir tryggði sér í kvöld sæti í úrslitaleik deildabikars karla í knattspyrnu með því að leggja KR að velli, 2:1, í undanúrslitum í Árbænum. Sigurmark Fylkis kom á þriðju mínútu uppbótartíma.
Fylkir, sem féll úr Bestu deildinni síðasta haust, mætir annað hvort Val eða ÍR í úrslitaleiknum. Þau mætast á þriðjudagskvöld.
Í kvöld var það fyrirliðinn Ragnar Bragi Sveinsson sem kom heimamönnum í Fylki í forystu eftir átta mínútna leik þegar hann skoraði beint úr aukaspyrnu.
Eiður Gauti Sæbjörnsson jafnaði metin fyrir KR á 37. mínútu þegar hann slapp einn í gegn eftir skyndisókn og skoraði.
Þegar virtist stefna í framlengingu skoraði Eyþór Aron Wöhler, sem kom til Fylkis frá KR, sigurmarkið á þriðju mínútu uppbótartíma er hann slapp í gegn og lagði boltann framhjá Halldóri Snæ Georgssyni í marki KR.