Stúlknalandslið Íslands í knattspyrnu mátti sætta sig við tap gegn Úkraínu, 2:1, í lokaleik sínum í seinni umferð A-deildar undankeppni Evrópumóts 17 ára og yngri í Cartagena á Spáni í dag.
Þar með endaði íslenska liðið í neðsta sæti riðilsins, tapaði öllum þremur leikjum sínum gegn Spáni, Belgíu og Úkraínu með eins marks mun, og fellur þar með niður í B-deild fyrir næstu undankeppni sem hefst í haust.
Útlitið var þó lengi gott því Fanney Lísa Jóhannesdóttir kom Íslandi yfir á 24. mínútu. Karina Lespukh jafnaði fyrir Úkraínu á 61. mínútu. Jafntefli hefði nægt íslensku stúlkunum en Daria Kolodii skoraði sigurmark Úkraínu á 87. mínútu, 2:1.
Spánn vann riðilinn með 9 stig og tryggði sér sæti í úrslitakeppninni um Evrópumeistaratitilinn. Belgía fékk 6 stig, Úkraína 3 og Ísland ekkert.