Víkingur varð í kvöld fjórða og síðasta liðið til að komast í undanúrslit deildabikars kvenna í knattspyrnu með því að sigra Keflavík, 5:0, í lokaleiknum í 2. riðli keppninnar á Víkingsvellinum í Reykjavík.
Breiðablik vann riðilinn með 15 stig og mætir Val í undanúrslitum en Víkingar fengu 8 stig og mæta Þór/KA. FH fékk einnig 8 stig, Stjarnan 7, Keflavík 4 en FHL ekkert. Austfirðingarnir í FHL töpuðu 5:0 fyrir Stjörnunni í Garðabæ í kvöld.
Öll fimm mörk Víkings komu í seinni hálfleik í kvöld. Birta Birgisdóttir, Arna Ísold Stefánsdóttir, Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir, Linda Líf Boama og Jóhanna Elín Halldórsdóttir skoruðu sitt markið hver.
Í Garðabæ skoraði Birna Jóhannsdóttir tvö mörk fyrir Stjörnuna, Anna María Baldursdóttir, Arna Dís Arnþórsdóttir og Úlfa Dís Úlfarsdóttir eitt hver.