Gamla ljósmyndin: Lasinn landsliðsþjálfari

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Meðfylgjandi mynd fangar ekki skemmtilegustu stund Arnars Gunnlaugssonar á knattspyrnuferlinum en er þrátt fyrir það skemmtileg á sinn hátt. Hún sýnir hlið á lífinu í landsliðsferðum þegar menn lenda í mótbyr og Arnar mun örugglega fyrirgefa okkur á mbl.is fyrir að endurbirta hana nú en myndin birtist fyrst í íþróttablaði Morgunblaðsins 26. mars 1999. 

Karlalandsliðið í knattspyrnu var statt í Andorra þegar myndin er tekin í mars árið 1999. Liðið var þá undir stjórn Guðjóns Þórðarsonar og barðist um að komast í lokakeppni EM 2000 þrátt fyrir að vera í afar erfiðum riðli með Frakklandi, Úkraínu, Rússlandi, Armeníu og Andorra. Framundan voru leikir í Andorra og í Úkraínu í þessum landsleikjaglugga eins og það er kallað. Ísland vann 2:0 í Andorra og gerði 1:1 jafntefli í Úkraínu. 

Arnar var lasinn í aðdraganda leiksins gegn Andorra og mátti gera sér að góðu að liggja á hótelherberginu til að safna kröftum. Sigurjón Sigurðsson þáverandi læknir landsliðsins annaðist Skagamanninn eins og sjá má á myndinni þar sem hann skoðar Arnar gaumgæfilega.

Hvaða ljósmyndari skyldi hafa fengið slíkan aðgang að landsliðinu á hótelinu? Jú stjörnuljósmyndarinn Ragnar Axelsson eða Rax. Þess ber að geta að umhverfið í kringum landsliðin í íþróttunum var alþýðlegra á síðustu öld og breyttist síðar með alls kyns umgengnisreglum, bæði alþjóðlegum og íslenskum. 

Sigurjón læknir tjáði Ívari Benediktssyni, sem var með í för fyrir Morgunblaðið og mbl.is eins og Ragnar, að hann vissi ekki hversu háan hita Arnar væri með en ennið væri sjóðandi heitt. Í frásögn Ívars kemur fram að Arnar hafi verið einangraður frá öðrum leikmönnum til að koma í veg fyrir smit og herbergisfélaganum Arnari Grétarssyni var því fundinn annar næturstaður. 

Svo fór að Arnar Gunnlaugs klæddi sig í landsliðstreyjuna og var í byrjunarliðinu gegn Andorra. Er hann nýráðinn landsliðsþjálfari karla í knattspyrnu og mun vafalítið fara fram á sömu ósérhlífni af leikmönnum sínum á komandi misserum. 

Fyrsti leikur liðsins undir stjórn Arnars verður á fimmtudaginn og verður vitaskuld fylgst grannt með hér á mbl.is. 

Arnar lék 32 A-landsleiki fyrir Ísland og skoraði í þeim 3 mörk. Leikirnir hefðu orðið mun fleiri ef meiðsli hefðu ekki litað feril þessa hæfileikaríka leikmanns. Arnar náði að taka nokkurn þátt í þessari undankeppni og lék til dæmis í leiknum fræga gegn ríkjandi heimsmeisturum Frakka í Laugardalnum haustið 1998, sem endaði 1:1.

Þegar myndin er tekin var Arnar tiltölulega nýgenginn til liðs við Leicester City í ensku úrvalsdeildinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert