Ari í Elfsborg

Ari Sigurpálsson.
Ari Sigurpálsson. Ljósmynd/Víkingur

Knattspyrnumaðurinn Ari Sigurpálsson er á förum frá Víkingi í Reykjavík til Elfsborg í Svíþjóð.

Ari á eftir að fara í læknisskoðun og skrifa undir samning en samkvæmt heimildum mbl.is fer hann út næstkomandi þriðjudag. Liðið er í efstu deild og Ari hittir þar Júlíus Magnússon, fyrrverandi fyrirliða Víkings, en hann kom til sænska liðsins frá Fredrikstad í Noregi í janúar.

Ari er uppalinn í HK en spilaði með yngri liðum Bologna á Ítalíu áður en hann gekk til liðs við Víking árið 2022. Með þeim varð hann Íslandsmeistari 2023 og bikarmeistari 2022 og 2023.

Ari hefur spilað 16 leiki í Evrópukeppni fyrir Víkinga og skoraði þrjú mörk í Sambandsdeildinni. Hann skoraði fyrsta mark Víkings í 3:1-sigri liðsins á Cercle Brugge þegar Víkingar skrifuðu sig í sögubækurnar en það var fyrsti sigur íslensks liðs í riðla- eða deildarkeppni Evrópumóts í fótbolta.

Elfsborg lenti í sjöunda sæti á síðasta tímabili og fyrsti leikur liðsins á komandi tímabili er 30. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert