Norska knattspyrnufélagið Odd tilkynnti síðdegis í dag að það hefði gengið frá kaupum á framherjanum Hinrik Harðarsyni frá Skagamönnum og samið við hann til loka tímabilsins 2028.
Hinrik, sem er tvítugur, kom til Skagamanna frá Þrótti í Reykjavík fyrir síðasta tímabil eftir að hafa skorað 11 mörk fyrir Þróttarliðið í 1. deildinni árið 2023.
Hann skoraði sjö mörk í 26 leikjum Skagamanna í Bestu deildinni á síðasta tímabili og var í fyrsta U20 ára landsliði Íslands sem lék fyrstu tvo leiki sína á árinu 2024. Þá er hann í 21-árs landsliðshópnum sem er á leið í tvo vináttulandsleiki á næstu dögum.
Odd er frá bænum Skien og féll úr norsku úrvalsdeildinni síðasta haust eftir að hafa endað þar í neðsta sæti. Hinrik mun því spila með liðinu í B-deildinni í ár.
Hinrik verður aðeins annar Íslendingurinn til að leika með Odd en landsliðsmarkvörðurinn Árni Gautur Arason frá Akranesi lék með liðinu á árunum 2008 til 2010.