Knattspyrnumaðurinn Leifur Andri Leifsson hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna, 35 ára gamall. Hann lék nánast allan ferilinn með uppeldisfélaginu HK fyrir utan leiki með venslafélaginu Ými.
Leifur Andri framlengdi samning sinn við HK í upphafi ársins og var því reiknað með því að hann tæki slaginn með liðinu í 1. deild í sumar.
Alls lék Leifur Andri 402 leiki fyrir HK í öllum keppnum og skoraði níu mörk, auk 18 leikja fyrir Ými í deild og bikar, þar sem hann skoraði einu sinni.
„Virkilega erfið ákvörðun enda með risa stórt HK hjarta en ég tel að það sé réttur tímapunktur til að fara einbeita sér að öðrum verkefnum núna.
Ég geng stoltur frá borði og ég hlakka til að fylgjast með strákunum frá öðru sjónarhorni í sumar en ég veit að þeir munu skila liðinu á þann stað sem HK á heima, í deild þeirra bestu,“ sagði Leifur Andri í tilkynningu frá knattspyrnudeild HK.
„Hann hóf feril sinn árið 2007 með HK og varð fljótlega lykilmaður í liðinu. Leifur lék yfir 400 leiki fyrir HK og er lang leikjahæsti leikmaður félagsins frá upphafi, enda kallaður „Herra HK“
HK mun heiðra Leif Andra fyrir allt það sem hann hefur gefið félaginu í Kórnum í sumar og verður það auglýst síðar,“ sagði í tilkynningunni.