Selfoss fær mikinn liðstyrk

Bjarni Jóhannsson þjálfari og Alexander Berntsson.
Bjarni Jóhannsson þjálfari og Alexander Berntsson. Ljósmynd/Selfoss

Karlalið Selfoss í knattspyrnu hefur samið við sænska varnarmanninn Alexander Berntsson um að leika með liðinu á komandi tímabili. Kemur hann frá færeyska félaginu KÍ Klaksvík.

Berntsson er þaulreyndur 28 ára gamall miðvörður sem á að baki 49 leiki fyrir Halmstad í sænsku úrvalsdeildinni og 146 leiki í sænsku B-deildinni fyrir Halmstad og Jönköping.

Hjá KÍ Klaksvík lék hann tólf leiki í Betri deildinni er liðið hafnaði í öðru sæti og alls tíu Evrópuleiki, þar sem Berntsson skoraði eitt mark.

„Ég er ánægður með að vera kominn til Íslands og að vera búinn að semja við Selfoss. Hingað hef ég ekki komið áður og ég hlakka til að byrja,“ sagði Alexander í tilkynningu frá knattspyrnudeild Selfoss.

Selfoss leikur í 1. deild á komandi tímabili eftir að hafa unnið 2. deild á því síðasta. Félagið er greinilega stórhuga þar sem enski kantmaðurinn Harley Willard gekk til liðs við félagið frá bikarmeisturum KA í síðasta mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert