Knattspyrnumaðurinn Tryggvi Hrafn Haraldsson, leikmaður Vals, er ekki til sölu en hann hefur verið orðaður við uppeldisfélag sitt ÍA að undanförnu.
Þetta sagði Björn Steinar Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Vals, í samtali við fótbolta.net í dag.
Skagamenn lögðu fram tilboð í leikmanninn á dögunum sem var hafnað en félagið er í leit að framherja eftir að Hinrik Harðarson var seldur til Odd í norsku B-deildina um helgina.
„Það er greinilega mikill áhugi á okkar leikmönnum og er þetta enn ein staðfestingin á því hversu öflugur hópurinn okkar er,“ sagði Björn Steinar í samtali við fótbolta.net.
„Ég get staðfest að það kom tilboð frá Skaganum í Tryggva Hrafn en hann er svo sannarlega ekki til sölu,“ bætti Björn Steinar við.