Knattspyrnumaðurinn Kristinn Freyr Sigurðsson hefur skrifað undir nýjan samning við Val sem gildir út tímabilið 2026. Inniheldur samningurinn möguleika á að framlengja hann um eitt ár til viðbótar.
Kristinn Freyr er 33 ára gamall miðjumaður sem hefur leikið með Val frá árinu 2012 fyrir utan eitt tímabil með GIF Sundsvall í Svíþjóð árið 2017 og eitt tímabil með FH árið 2022.
Hann ólst upp hjá Aftureldingu en skipti ungur til Fjölnis þar sem meistaraflokksferilinn hófst þegar Kristinn Freyr var einungis 15 ára gamall.
Alls á hann að baki 267 leiki í efstu deild fyrir Val, FH og Fjölni, þar sem Kristinn Freyr hefur skorað 46 mörk. Þá lék hann 38 leiki og skoraði fimm mörk fyrir Fjölni í 1. deild.
Með Val hefur Kristinn Freyr orðið Íslandsmeistari í tvígang og einnig bikarmeistari tvisvar sinnum.