Útlit er fyrir að uppselt verði á fyrri leik Kósóvó og Íslands í umspili Þjóðadeildar karla í fótbolta sem fram fer í Prishtina, höfuðborg Kósóvó, á fimmtudagskvöldið.
Samkvæmt upplýsingum mbl.is hafa þegar um 9.000 miðar verið seldir á leikinn en Fatil Vokrri-leikvangurinn í höfuðborginni rúmar 13.980 áhorfendur.
Völlurinn var endurnýjaður á árunum 2016 til 2018 og þá lenti Kósóvó einmitt í því að þurfa að spila heimaleik sinn gegn Íslandi í undankeppni HM í Shkodër í Albaníu. Rétt eins og Ísland þarf núna að spila heimaleik sinn gegn Kósóvó á sunnudaginn kemur í Murcia á Spáni vegna framkvæmda á Laugardalsvellinum.