Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu æfði á La Finca-svæðinu í Alicante á Spáni í dag, þar sem liðið undirbýr sig fyrir leikina tvo við Kósovó í umspili um sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar.
Allir leikmenn hópsins tóku þátt í æfingunni í dag, fyrir utan Mikael Andersen sem er að glíma við smávægileg meiðsli.
Samkvæmt heimildum mbl.is eru meiðslin ekki alvarleg og ætti hann að geta verið með í leikjunum tveimur við Kósovó.
Fyrri leikurinn er í Kósovó á fimmtudagskvöld og sá seinni í Murcia á Spáni á sunnudag. Er það heimaleikur Íslands en ekki er hægt að leika á Íslandi vegna framkvæmda á Laugardalsvelli.