Markvörðurinn Stefán Þór Ágústsson reyndist hetja Vals í kvöld þegar liðið tók á móti ÍR í undanúrslitum deildabikars karla í fótbolta á Hlíðarenda.
Úrslitin réðust í vítakeppni þar sem Stefán Þór, sem kom inn á sem varamaður á 34. mínútu eftir að Ögmundur Kristinsson fékk að líta rauða spjaldið, varði tvær vítaspyrnur.
Guðjón Máni Magnússon kom ÍR yfir á 35. mínútu með marki úr vítaspyrnu áður en Orri Sigurður Ómarsson jafnaði metin fyrir Val, þremur mínútum síðar.
Patrick Pedersen kom Val svo yfir á 40. mínútu áður en Víðir Freyr Ívarsson jafnaði metin fyrir ÍR á 87. mínútu og því var gripið til vítaspyrnukeppni.
Valsmenn voru sterkari í vítakeppninni, skoruðu úr fjórum af fimm spyrnum en Stefán varði tvær spyrnur ÍR-inga og tryggði Valsmönnum sæti í úrslitaleiknum gegn Fylki sem fer fram á laugardaginn kemur.