„Hún er ættleidd frá Indónesíu en hefur alltaf búið á Íslandi,“ sagði Mikael Egill Ellertsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, í samtali við mbl.is í Alicante á Spáni um móður sína.
„Ég hef aldrei farið þangað en ég væri til í að kíkja og skoða. Það er mikil ástríða í fólkinu þarna.
Það var einn liðsfélagi að skipta yfir í landslið Indónesíu og þá var fólk frá Indónesíu byrjað að reyna að fá mig yfir í landsliðið þeirra,“ bætti hann við.
Íslenska liðið hefur síðustu daga æft á Alicante í undirbúningi fyrir leikina gegn Kósovó í umspili um sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar.