Orri Steinn Óskarsson er nýr fyrirliði íslenska landsliðsins en Arnar Gunnlaugsson skipaði framherjann unga fyrirliða í sínu fyrsta verkefni sem landsliðsþjálfari.
Orri er enn aðeins tvítugur og kom ákvörðunin því mörgum á óvart, ekki síst Orra sjálfum.
„Ég var í smá sjokki. Sem lítill drengur vonast maður alltaf til að komast í landsliðið en maður hugsaði aldrei út í að vera fyrirliði.
Það eru alls ekki allir sem fá að upplifa það á ferlinum. Ég er mjög glaður og stoltur og þetta er eitt stærsta augnablikið á ferlinum til þessa,“ sagði Orri við mbl.is.