„Ég held að í grunninn skipti það engu máli,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, spurður hvort hann teldi það gott eða slæmt að mæta tveimur andstæðingum sínum á EM 2025 tvisvar áður í A-deild Þjóðadeildarinnar í vor.
Ísland er í riðli með Sviss, Noregi og Finnlandi á EM og er einnig með Sviss og Noregi í riðli sínum í Þjóðadeildinni.
Sviss og Noregur eru einmitt andstæðingar Íslands í næsta landsleikjaglugga í byrjun apríl. Þegar liðin þrjú eigast við á EM munu þau vera búin að mæta hverju öðru tvisvar hvert í Þjóðadeildinni nokkrum mánuðum fyrr.
„Þetta er fyrirkomulagið. A-deild Þjóðadeildarinnar er sami styrkleikaflokkur og lokakeppni EM. Það eru þessar þjóðir sem mætast og það eru fleiri þjóðir en við þrjár sem eru að mætast núna í Þjóðadeildinni sem eru svo saman í riðli í lokakeppninni.
Þetta er eitthvað sem mun áfram gerast í framtíðinni ef þetta verður fyrirkomulagið. Ég tel það ekki vera neitt slæmt. Munurinn er kannski að hérna erum við að spila heima og úti. Á EM er þetta bara einn leikur og hann er bara leikurinn sem telur.
Það er aðeins öðruvísi. Hvort að þú sért að spila við liðin í þriðja skipti á einhverjum fjórum til fimm mánuðum, ég held að það skipti í sjálfu sér engu máli af því að hver leikur er einstakur og hefur sitt upphaf og endi. Ég held að það breyti engu,“ sagði Þorsteinn á fréttamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í dag.